Saturday, March 26, 2005

Músik og Mömmudrengir.

Nú eru spænskir búnir að velja lag í Eurovision en það lag sigraði í forkeppni sem haldin var hérna og sýnd í sjónvarpi. Sem sannir Íslendingar með Eurovision-hjarta horfðum við náttúrulega á herlegheitin. Þó við Íslendingar séum nú alltaf nett-hallærislegir þegar kemur að svona löguðu, má segja að Spánverjar komi líklega fast á hælana á Þjóðverjum hvað hallærislegheit varðar í þessum efnum. Að lokum sigraði þó lag sem þrjár systur (assgodi miklar skessur) syngja og heitir "Brujeria" sem merkir "galdur". Bið ég ykkur um að fylgjast vel með þessu lagi en það er orðið nokkuð vinsælt hérna. Við erum búin að sjá framlag íslands í keppninni á netinu og ég verð að segja að textinn er nú ekki sá dýrast kveðni sem ég hef heyrt né laglínan sú flóknasta. En ég hef trú á Selmu og hún gerir þetta bara nokkuð vel stelpan. Fyrst ég er komin í músikina þá verð ég aðeins að tala um músikmenningu Spánverjanna. Allir kannast við búttaðar senjorítur sem dilla sér með taktföstum og þokkafullum hreyfingum með hendurnar upp fyrir haus og smella saman kastaníettunum...mjög tilkomumikið og listrænt. Og oftar en ekki er á móti þeim einhver "kavalíer" sem lítur út eins og nautabani með krónupening klemmdan á milli rasskinnanna og steppar þessi lifandis ósköp öskrandi OLA!...OLA! í tíma og ótíma. Svo eru þeir sem titla sig n.k. þjóðlagasöngvara og standa (eða sitja) þrautreyndir og hoknir af lífsreynslu með klút í hendi og syngja..eða eiginlega öskra...alveg neðan úr maga, svona víbrandi orgi eins og rolla sem hefur tínt báðum lömbunum sínum. Á bakvið hann situr svo einhver sveittur flamengo- gítarleikari og spilar eins og hann fái meira borgað eftir því sem hann spilar hraðar. Það er ekki nokkur leið fyrir neinn að skilja um hvað aumingja maðurinn er að syngja...ef hann er þá að syngja, en þetta er mjög átakanlegt alltsaman. Svo núna akkúrat er ég að hlusta á vinsældarlistann hérna og þar er nú frekar einsleitur hópur. Samanstendur hann að mestu af sleiktum mömmudrengjum sem eru ekki komnir almennilega í mútur. Þeir væla eins og þeir hafi fest æxlunarfærin í skrúfstykki og reyna svo að flúra þetta með svona víbri til að sýnast reyndir og að þeir viti nú um hvað þeir eru að gaula! Og textinn maður,..oooooo corazón...ajajajaj...mi amor...jæjæjæj..te qiero.....OLA!!! Og svo myndböndin...USS!! Það er skelfilegt að sjá sum myndböndin hjá kananum en enn skelfilegra er þó að sjá aðra reyna að stæla þá og ofgera það svona hressilega....Jesús Kristur!!! Þar eru þessir sleiktu mömmudrengir á mittisskýlu á eyðieyju eða í einhverri paradís með krökkt að hálfnöktum blómarósum í kringum sig og akta svoleiðis að Jenna, vinkona mín, Jameson myndi ekki einusinni fást til að leika í þeim. Spænskir karlmenn eru ákaflega merkilegir til rannsóknar hvað mökun snertir. Þegar þeir eru að þreifa fyrir sér eru þeir svo "rómantískir" (jeah...right) og mjúkmálir með blóm og falleg orð og mjálma svona lög og klappa saman höndunum í takt og dilla sér svona í flokkum eins og hommar á leið á Disco. Næsta stig er þannig að þegar þeim hefur tekist að lokka einhverja senjorítuna til lags við sig þá fara í gang ákveðnir leikþættir sem ganga út á það að vera EXTRA-ástúðlegur á opinberum stöðum. Það virðast dömurnar þola eitthvað illa og slá á ástleitna puttana á þeim og við það verða þeir svo yfirmáta móðgaðir og snúa sér upp að vegg og setja upp fýlusvip og haga sér eins og krakkar sem fá ekki það sem þeir vilja. Þá er komið að dömunum að sleikja fýluna úr þeim og það er ekki minna fyndið og getur tekið dágóðan tíma. Svona gengur þetta á víxl og ég spurði Ernu hvort hún héldi ekki að þetta væru dauðadæmd sambönd? Nei....svona er þetta hérna...!!? "Ja hérna" segi ég nú bara....ætli David Attenborough viti af þessu?? Svo þegar þeir eru búnir að negla kerlingarnar og hrúga niður börnum og gera þær feitar, ÞÁ fer nú ekki mikið fyrir rómantíkinni og "aíííí...mi amour...te quiero..æíæíæíæí!!! Nei..þá sitja þeir á kaffihúsum með sitt "Carajillo" og kellingin má vera heima og sinna því sem henni ber. Þess má geta að heimilisofbeldi er eitt stærsta þjóðfélagssvandamálið hér á Spáni og næstum daglega er fjallað um það í fréttum og t.a.m. hafa um 14 konur verið myrtar af kærustum, eiginmönnum eða fyrrum eiginmönnum sínum hérna það sem af er ári. Semsagt, miklir "rómantíkerar" þessir Spánverjar. Þær Tóta og Maren mættu gjarnan bæta "spænska-Jóa" á listann sinn.

Spánarkveðjur....

Nonni.

Friday, March 25, 2005

Menningarferð um Calafell.

Öhh....hæ...þið hafið vonandi ekki haldið að ég væri hættur...eða dauður? Nei, ritþurrð (leti) og tímaleysi (aftur leti) er þar helst um að kenna og svo að sjálfsögðu því að þar sem þetta er eina tölvan á heimilinu kem ég síðastur í goggunarröðinni hvað heimild til notkunar snertir, ÞRÁTT fyrir það að ég sé eigandinn. Svona hafa menn það, kæru bræður, sem búa í kven-heimi. Jæja, burt með allan barlóm og "back to business"!! Semsagt...á þorrablótinu, sem við fórum á um daginn, kynntumst við pari, þeim Heiðari og Signýju, en þau búa í Barcelona ásamt 4 ára syni sínum Gulla. Þau vitust vera á svipaðri línu og við því með okkur tókst ágætur vinskapur og undir lok blótsins skiptumst við á númerum og ákváðum að vera í bandi. Um miðja vikuna höfðum við svo samband og buðum þeim til okkar í mat og þáðu þau það. Komu þau svo gallvösk á laugardagsmorgninum og tókum við þau í "menningarferð" um bæinn. Farinn var smá kynningarrúntur um Calafell og staðurinn kynntur í mjög grófum dráttum. Því næst hélt hersingin í fornleifaskoðun, eða nánar tiltekið að skoða um 2.500 ára gamlar rústir þorps frá dögum Ibera ""La ciudad Iberica". Var það hæfilega mikil skemmtun en fræðandi þó, og er ég ekki viss um að við töpum okkur í áhuganum á forleifunum hérna. Að þessu loknu var tekinn göngutúr um strand-verslunargöturnar. Nú þurfti að fara að huga að matnum því að við vorum að renna út á tíma því Heiðar og Signý þurftu að ná lest til BCN. um kvöldið. Komumst við að þeirri niðurstöðu að best væri að þau gistu til að þurfa ekki að vera í stressi við að éta og var að sjálfsögðu haldið upp á þessa ákvörðun með nokkrum öllurum í rikk.. Maturinn lukkaðist bara nokkuð vel en hann var tuddi með bearnaise og öllu galleríinu. Var ég bara nokkuð drjúgur með okkur þangað til upp komst að Signý er alger meistarakokkur (skrifar greinar fyrir Gestgjafann) og af lítillæti aulaði því ekki út úr sér fyrr en við vorum búin að borða og ég hafði talað fjálglega um eigið ágæti sem kokkur og ótakmarkað vit mitt á mat ýmiskonar. Hrósuðu þau samt matnum og að uppvaski óloknu var sest niður að spjalli og nokkum flöskum og bjórum síðar og klukkan"alltofmargt" var lagst til hvílu. Ekki öfundaði ég þau að hafa, eftir að vera búin að sofa í glerhörðu barnarúmi við lokaðan glugga í pínulitlu herbergi, að hristast í lest í klukkutíma til BCN. Þar að auki var Heiðar greyið svo þunnur að hann var að drepast seinni hluta leiðarinnar, OG hann átti eftir að lesa undir próf á mánudeginum. Ég varð alveg hræðilega þunnur og með móral yfir gærkvöldinu....þið vitið ...að hafa röflað einhverja steypu eða haft tónlistina of hátt stillta og ...þið vitið...bara svona týpískan móral. EN...það var ekki verra en svo að þegar við heyrðum svo næst í þeim vildu þau endilega að við heimsæktum þau niður til Torrevieja helgina eftir en þar voru þau í húsi sem foreldrar hans áttu og höfðu það ein útaf fyrir sig. Þar sem við vorum nokkurnveginn búin að skipuleggja svona "snemm-páska-fjölskylduferð" og líka það að þetta er heldur til of langt að keyra svona í einum rikk, þá afþökkuðum við gott boð og ákváðum að hittast bara heima hjá þeim í BCN. við gott tækifæri. Ásthildur er lika ekki sú spenntasta fyrir löngum bíltúrum. Svona eru nú menningarferðirnar í Calafell góðir hálsar! Smá menning, síðan búðarráp, þvínæst yfirát og svo hrunið í það í restina. Semsagt...íslenskt.....JÁ TAKK..!!!!

Friday, March 11, 2005

"11-M"

Dagurinn í dag hefur einkennst öðru fremur af því að nú er nákvæmlega ár liðið frá hryðjuverkunum í Madrid þar sem tæplega 200 manns létu lífið í lestarsprengingu. Hver einasta sjónvarpsstöð hérna hefur fjallað um þetta meira eða minna í allan dag. Um allan Spán hefur fólk flykkst út á götur og á hádegi í dag var 5 mín. þögn til minningar um þá sem fórust. Í skólanum hjá Kristjönu stóðu nemendur upp og höfðu 3 mín. þögn. Það er býsna tilkomumikið að horfa á svona nokkuð og ekki síður að taka þátt í því. Þjóðhöfðingjar flykktust hvaðanæva að og sýndu með því stuðning sinn. Ég neita því ekki að það læddust að manni ónot þegar maður settist fyrst upp í lestarnar hérna sem líta nákvæmlega eins út og þær sem maður sá í sjónvarpinu fyrir ári síðan. Og það er ekki laust við að maður finni til með þjóðinni og manni finnst andrúmsloftið hafa verið eitthvað öðruvísi í dag sem er auðvitað ekkert skrítið. Þetta er náttúrulega engin uppörfandi gleðiskrif hjá mér, enda ekki til þess ætluð. Mér fannst ég bara verða að segja frá þessu því við heima á Íslandi erum svo miklu heppnari en við gerum okkur grein fyrir, að þurfa ekki að lifa við þessa ógn, því það held ég að sé frekar óskemmtilegt.

Einn á alvarlegu nótunum....

Glories.

Glories, í miðbæ Barcelona, er einhver stærsti útimarkaður í Katalóníu en sjálft Glories er í raun mjög stór verslanamiðstöð en í jaðri hennar er svo útimarkaðurinn sem kenndur er við hana. Við vorum alltaf búin að ætla okkur að fara þangað og var ástæðan aðallega sú að þar eru menn sem "brjóta upp" GSM-síma. Síminn hennar Dittu er nefnilega læstur af því fyrirtæki sem við keyptum hann af, svo ekki sé hægt að nota kort frá öðrum fyrirtækjum í hann..sniðugt? Mig langaði líka að athuga hvort ekki væri verið að höndla með peningaseðla sem mig gæti vantað í safnið mitt. Nú...við vorum búin að mæla okkur mót við Stebbu "Guide"og keyrðum því til Castelldefels og pikkuðum hana upp þar og héldum því næst sem leið lá inn í Barselona. Í eitt skiptið þegar ég stoppaði á rauðum ljósum þá vatt sér að bílnum einhver hálfnegri með brúsa og sköfu í hönd og gerði sig líklegan til að þvo hjá mér framrúðuna. Ég hristi hausinn ákaft en hann, engu að síður, byrjaði að þvo rúðuna. Ég var að spá í að skella á hann pissinu og þurrkunum því ég vissi hvað þetta þýddi......hann vildi peninga og ekkert múður. Jújú...hann lagðist á gluggann og mjálmaði "give me money" og benti á veskið hennar Ernu á milli sætanna. Ég hristi hausinn enn ákafar og gargaði á hann "I said NO" og hann aftur "give me money". Nú fannst mér ljósin vera búin að vera rauð helv. lengi og var þetta orðið verulega vandræðalegt. Loks kom þó grænt og hann drullaði sér í burtu. Það var ekki það að ég ætti ekki pening, ég bara kæri mig ekkert um að aðrir séu að kákla í mínum bílum án míns samþykkis og vilja svo peninga fyrir það, ég get þrifið mína bíla sjálfur takk! Jæja, við komumst svo slysalaust á áfangastað og lögðum bílnum í bílageymslu staðarins og héldum á markaðinn. Þar var gjörsamlega stappað af fólki og það er ekki til sá hlutur á jarðríki (og rúmast í vasa eða undir jakka Marokkómanns) sem ekki fæst þarna. Erna og Stebba foru að finna gæjana sem krakka upp síma en ég spottaði út kall sem var að selja m.a. seðla. Hann var eiginlega bara með spænska seðla og ég misskildi hann eitthvað með verðlagninguna og var búinn að pikka út nokkra góða þegar ég áttaði mig á því að ég var að verða kominn í 1000 evrur. Ég benti honum góðlátlega á að hann væri okrari og með brenglað verðskyn og eitthvað fór það öfugt í hann. Allavega þá móðgaði ég hann svo hroðalega að ég var ekki rólegur á eftir....bjóst við á fá hníf í síðuna eða eitthvað! Við olnboguðum okkur svo þarna um í góða stund í þessari sérkennilegu stemningu og fékk ég svona nett á tilfinninguna að það væru fingur að þreifa á manni öllum í leit að einhverju fémætu. Allavega bað Stebba okkur um að passa vel veskin okkar meðan við værum þarna. Þeir voru 5 mín. að opna símann og tóku heilar 8 evrur fyrir og Stebba keypti sér litla hillu og létum við þau viðskipti nægja og héldum í leit að einhverju æti. Fundum við einhvern "Oriental" stað í verslunarmiðstöðinni með hlaðborði og át ég svo mikið að ég sá allt í móðu lengi á eftir....mmmm! Þar hópuðust starfsmenn kringum Ásthildi og máttu vart mæla af hrifningu yfir þessu ljóshærða og bláeyga barni og viðist hún vera farin að átta sig á því hvað þarf að gera til að bræða liðið því hún er farin að brosa og gretta sig og gara allskyns kúnstir og virðist bara njóta athyglinnar nokkuð vel. Við borguðum síðan fáránlega lága upphæð fyrir þetta alltsaman og hugðum að heimferð. Erna var sjálfskipaður driver þar sem ég hafði skolað matnum niður með 2 stórum bjórum og mátti það ekki minna vera. Það gekk hnökralaust að rata til baka og erum við bara orðin nokkuð lunkin í umferðinni hérna, þó ég segi sjálfur frá, og alveg að verða laus við stress um að villast. Á fyrrnefndum ljósum var kominn annar hálfnegri í rúðuþvott og er ég þess fullviss um að þeir sitja á nálægum bar og drekka út innkomuna á rúðuþvottinum og skiptast svo á. Síðan míga þeir örugglega á brúsann og selja þar með hlandið úr sér aftur fyrir meiri bjór og bílstjórar sem eiga sér einskis ills von fá þetta svo yfir sig þegar þeir stoppa á rauðum ljósum. Heeeeiiii......þetta er ekki svo galin hugmynd...haha!Svona í leiðinni droppuðum við við í raftækjaverslun og keyptum digital-myndavél fyrir Kristjönu, því hún var á svo góðu tilboði, og hún hafði alltaf ætlað að kaupa sér svoleiðis. Því næst skiluðum við Stebbu af okkur og héldum heim og ekki seinna vænna þar sem þessi leiðangur var búinn að taka um 5 tíma og allir orðnir þreyttir. Um kvöldið fórum við Kristjana svo í Miro og keyptum MP3 spilara fyrir hana og er hún því búin að kaupa það tvennt sem hún ætlaði sér hérna á Spáni, þ.e.a.s. myndavél og spilara. Until next......adios!

Monday, March 07, 2005

Magáll og "María María".

Sælt veri fólkið. Eins og til stóð drifum við Erna okkur ásamt þeim Skarpa og Stebbu á þorrablótið í Barcelona og tók það okkur ekki nema um hálftíma að finna staðinn sem það var haldið á. Þarna voru samankomnir um 70 íslendingar og ekki olli maturinn vonbrigðum...ja..allavega ekki fyrir svona sveitalim eins og mig sem er alinn upp á þessu góðgæti. Þarna gaf að líta hangikjöt, svið, súra bringukolla, harðfisk, saltkjöt, slátur, sviða- og grísasultu, þrumara, rófustöppu. jafning svo fátt eitt sé nefnt, og að ógleymdum alveg hrikalega góðum hákarli sem var að sjálfsögðu skolað niður með frosnu brennivíni. Eftirrétturinn var svo al-íslenskt skyr með rjóma...jummy!!! (Ég er ekki hissa þótt þeir séu í vandræðum með hryðjuverk hérna fyrst það tókst að smygla þessu öllu hingað). Meðan á borðhaldi stóð spilaði svo Óli Adólfs (fyrrum rútubílstjóri á Íslandi) undir söng á harmónikku. Voru það að vonum gömul og góð þorrablótslög og var hraustlega tekið undir. Semsagt...þorrablót eins og þau gerast best. Skömmu upp úr kl: 12 fórum við svo að huga að heimferð þar sem Erna var orðin þreytt og þoldi þar að auki reykinn frekar illa vegna lungnabólgunnar. Það var að færast fjör í mannskapinn og fólk tekið til við að færa borð og stóla til að rýma fyrir dansplássi því Discotekið Dísa hafði verið fengið til að halda uppi stuði fram undir morgunn. Ekki veit ég hvernig þetta endaði en að sjálsögðu mun ég flytja af því fréttir um leið og þær berast mér til eyrna. Við söfnuðum svo saman okkar börnum og vorum komin hingað til Calafell um 2 leitið um nóttina. Við dormuðum svo frameftir morgni daginn eftir og létum síðan verða af því að skoða kastalann sem Calafell er skýrð eftir og var það skemmtiför hin mesta. Þetta er eldgamall kastali ( fyrstu menjar frá því um árið 920-950) og stendur frekar hátt yfir bænum og útsýni því þokkalega gott yfir allt. Næst stendur svo til að fara og skoða "Iberica" rústir sem eru hér á milli bæjanna Calafell og Segur De Calafell en þær eru frá tímum Rómverja og mjög athygliverðar. Þetta er semsagt bær með sögu og ekki verður hún síðri eftir að við höfum búið hérna....ehemm ;-)
Well folks....við verðum að láta þetta duga í bili því þetta er eina tölvan á heimilinu og því ligg ég undir barsmíðum meðan þetta er ritað. Hasta luego.....

Friday, March 04, 2005

Þorrablót.

Haldiði ekki að það standi til að halda þorrablót á morgun fyrir alla íslendinga hérna í Barcelona og nærliggjandi sveitum. Nú er aðal málið að finna í hverjum djö... við eigum að fara því það eina sem við tókum með okkur voru bara einhverjar sólstrandartuskur og svo flíspeysur til að vera í á leiðinni út. Vonandi verður Erna orðin það góð að við getum farið og allavega borðað þó ekki væri meira. Meiningin er að stelpurnar verði heima hjá Stefaníu og Skarphéðni á meðan en þau eru vinafólk okkar sem búa í Castelldefells sem er svona eins og Hafnarfjörður þeirra Barcelona-búa. Þau eiga dóttur sem er 15 ára og getur passað, og hún er líka ágætis vinkona Kristjönu. Annars var ég búinn að strengja þess heit að fara aldrei framar á íslendingasamkomur erlendis síðan ég fór á eina slíka í sendiráði Íslands í Stockhólmi þann 16. júní '79 en það er eitt rosalegasta fyllirí sem ég hef tekið þátt í eða orðið vitni að á ævi minni allri, og kalla ég nú ekki allt ömmu mína...ja...nema náttúrulega ömmu mína! Það er nefnilega svoleiðis með Íslendinga þegar þeir koma saman á erlendri grund, og ég tala nú ekki um ef frítt áfengi er í boði, þá gjörsamlega missa þeir vitið og sletta svo ærlega úr klaufunum að víkingar til forna og Rómarkeisarar yrðu eins og sálmagaulandi altarisbörn í samanburði við okkur Íslendinga. Þess má geta að þetta var í síðasta skipti sem svona veisla var haldin til handa íslendingum í Stockhólmi því ég held að útgjaldaliður vegna hennar hafi farið aðeins fram úr áætlun og þá ekki síst vegna skemmdar á gróðri á 4 hekturum lands, einnar stolinnar skútu og hraðbáts , 5 lausaleikskróga sem sem komu undir og málshöfðunar vegna særðrar blygðunarkenndar nágranna allt í kring, fyrir svo utan tiltekt og frágang á eftir, en það tók hreinsunardeild og smiði borgarinnar 3 daga að ganga frá eftir ósköpin. Þeir sem þekkja mig vita að mér er ekki gjarnt að ýkja eða fara með ósannindi og því má af þessu sjá að það er ekki að ástæðulausu þótt renni á mig tvær grímur með að fara á þorrablót íslendinga hér á Spáni. Þette halv. er ekki nema fyrir hugrökkustu menn og ekki séns að ég láti hafa mig í það ódrukkinn. Nei, að öllu gamni slepptu vona ég við getum farið og að þetta verði bara gaman. Færi fréttir af því hvernig til tókst seinna....bless í bili...

Los spañoles.

Thursday, March 03, 2005

"Kuldakast Dauðans"

Jæja, þá er maður sestur aftur við skriftir eftir langvarandi ritstíflu og andleysi sem orsakast að mestu leyti af því að hér er búinn að vera einhver kaldasti tími í veðursögu Spánar og 1. mars s.l. fékk það mjög svo uppörvandi met að vera kaldasti dagurinn á Spáni í 100 ár þar sem næturhitinn fór vel niður fyrir frostmark um gervallann Spán og sáust tveggja stafa tölur sumstaðar. Og í Frakklandi, sem er svo að segja næsti bær, þar er þetta kaldasti tími í 200 ár ...takk fyrir!!! Loksins þegar maður ákveður að drullast af klakanum og þýða sig upp í landi sem er margrómað fyrir hlýindi, sól, sandala og ermalausar buxur og boli, þá lendir maður í þessu helv. Og hvað hefur svona nokkuð svo í för með sér? Jú, áður en við komum hingað stóð til að setja rör í eyrun á Ásthildi en læknirinn vildi bíða með það vegna væntanlegra loftslags-breytinga sem hefðu mjög góð áhrif (gæti kýlt hann núna). Hvað svo??? Auðvitað er barnið komið með bullandi eyrnabólgu og er komin á einn pensillínkúrinn enn. Og Erna, sem er búin að vera að drepast úr kulda síðan við komum hingað, fékk svo lungnabólgu í kaupbæti. Sko....eitt er að það sé kalt úti, en hitt er það að húsin hérna eru svo óþétt að það er meira skjól í fjár-réttunum heima..svei mér þá!! Það er vandamál að hafa kveikt á kertum hérna inni..... (nei nú fór ég aðeins frammúr mér). Þegar Erna varð veik hélt ég að hún væri nú bara að fara yfir móðuna miklu og tókst náttúrulega að mála Satan sjálfan á alla veggi. Ég stökk í tölvuna á netdoktor.is og notaði útilokunaraðferðina þangað til lungnabólga var ein eftir og var því ljóst að við yrðum að leita læknis áður en í mjög illt færi. Það er sem betur fer stutt héðan og þar hittu við lækni sem leiddist ótrúlega starf sitt og hafði augljóslega ætlað að éta sig kátan aftur með litlum árangri. Jæja...hann vildi senda Ernu í lungnamyndatöku til El Vedrell, sem er næsti bær við okkur og keyrðum við því þangað. Þar biðum við í klukkutíma uns við komumst að og þegar búið var að taka myndir og skoða kom í ljós að hún var með lungnabólgu og þeir vildu senda hana í blóðrannsókn á spítalann í Tarragona ( um 30 km.) til að mæla súrefnismettun í blóðinu..fjör...ha?? En þeir voru nú svo elskulegir að bjóðast til að keyra hana þangað í sjúkrabíl því klukkan var orðin 10 um kvöldið og stelpurnar einar heima. Það kom svo í ljós að blóðið var í lagi, sem betur fer því annars hefði Erna þurft að vera á spítalanum í Tarragona í 3-4 daga, og kom hún því heim í leigubíl kl. 2 um nóttina. Það er eitt sem ég dáist að Spánverjum fyrir og það er þessi endalausa biðlund sem þeir hafa. Á biðstofunum var ekki að sjá að nokkrum manni leiddist að bíða og þegar kemur að biðröðum þá er fólk svo pollrólegt að það er alveg magnað. Þó að sé t.d. einn kassi opinn af tíu í búðinni þar sem við verslum og 5-6 manns í biðröð með fullar innkaupakörfur, þá dettur engum í hug að býsnast yfir því að ekki sé opnaður annar kassi. Menn bíða bara sallarólegir uns röðin kemur að þeim. Og þótt einhver komi svo með einn kexpakka, þá bíður hann bara og er ekkert að frekjast framfyrir, og ef maður býður honum að vera á undan....ja..þá ertu búinn að eignast tryggan vin ævilangt. Og það er annað sem ég tók eftir hérna sem er alger snilld!! Þegar maður kemur inná stað eins og t.d. apótek eða pósthús, þá eru engin númer eða neitt svoleiðis. Þá spyrja menn: Hva verður þá ekki allt vitlaust eins og heima þar sem hver frekjast fram fyrir annan og segjast nú örugglega hafa verið næstir og röðin sé löngu komin að þeim? Nei ...hérna kemur maður inn og spyr svona létt yfir hópinn "hver er síðastur"? Einhver réttir þá upp hönd og þá VEIT þessi maður að hann er næstur á eftir þeim sem rétti upp höndina...ekkert röfl...bara snilld!! Nú, áfram með smjörið! Í gærkvöldi fór ég svo með þær mæðgur á heilsugæsluna og þurftum við að bíða þar í rúma 2 klukkutíma þar sem biðstofan var full af fólki. Að sjálfsögðu voru allir skælbrosandi og að rifna af hamingju yfir að fá að bíða þarna en ég verð að segja að ég er ekki alveg dottinn í þennan bið-fíling ennþá og ef ekki hefði verið fyrir kaffisjálfsala sem hellti uppá svo sterkt kaffi að það hefði mátt búa til hjólbarða úr því og hitt að Ásthildur fór á kostum og bræddi alla þarna inni, þá hefði maður ekki sloppið óbrjálaður frá þessu. Svo var þunglyndi átsjúki læknirinn ekki heldur á vakt heldur einhver ungur stimamjúkur skælbrosandi laknir og fannst mér Erna svona full fljót að vippa peysunni upp um sig og ég hélt að það þyrfti ekki að hlusta sjálf brjóstin á lungnabólgu- sjúklingum...common...var ég ósýnilegur eða hvað...og það fyrir framan barnið??? En..það er skemmst frá því að segja að þær mæðgur eru báðar á mjög góðum batavegi og horfur því nokkuð góðar því í dag, góðir hálsar, þegar ég var að fara í "sauna" að ná hita í kroppinn, sýndi hitamælirinn í bílnum heilar 16°C og það á ekki að hitna fyrir alvöru fyrr en á laugardag. Djö. held ég að verði heitt þá maður!! Ég náttúrulega í einhverju bjartsýniskasti þrusaði upp topplúgunni og opnaði alla glugga og krúsaði um bæinn með aðra hönd á stýri og dró hina eftir götunni. Í þessum fíling og með bensínstöðvarsólgleraugun á nefinu fannst mér ég ekki hótinu minna "cool" en einhver Snoopy Dog Dildo eða einhver amerískur hálfnegri....ónei!! Svo ég klári heilsufarspakkann þá eru þær eldri systur nokkuð "steibúl" fyrir utan eitthvað smákvef um daginn sem kostaði 1 eða 2 daga fjærveru frá skóla. Ég virðist vera sá eini sem hef sloppið algerlega frá þessum hremmingum og þakka ég það helst nýrri tækni sem ég hef þróað hérna. Kallast hún "rauðvíns-bjór-brandý-gin-meðferðin" og gengur út á það að vera helst aldrei alveg edrú en vera alltaf svona létt-marineraður allan daginn. Með þessu vil ég meina að allar illar pestir fælist í burtu. Ég er nokkuð viss um það því ég finn það á morgnana hvað líkaminn er beinlínis slappur eftir að vera búinn að berja af sér pestir alla nóttina. Jæja þetta fer nú að verða gott í bili...maður má nú ekki klára sig alveg, og bið ég aðdáendur mína afsökunar á því að það leið svona langt á milli pósta. Þangað til næst.....

Adios..

Tuesday, February 15, 2005

"Perrar"

Þá er sá dýrðardagur, mánudagurinn 15. feb. runninn upp með sól í heiði og fuglasöng í trjánum. Eða ætti ég hannski að segja "hundgá í öðrum hverjum garði og skít úr þeim um allar jarðir þessa lands". Það er ekki fyndið hvað Spánverjar eiga af þessum kvikindum. Þegar maður labbar niður í bæ efti göngugötunni hérna þá er gjammað á mann úr öllum áttum og maður er eins og Jack Nickolson í "As good as it gets"þegar maður tipplar á tánum á milli hraukanna úr þeim og svo er eitt okkar alltaf svona "guide" á undan sem lætur vita af þeim svo maður stigi ekki í óþverrann. Það er með ólíkindum hvað maður þekkir orðið af hroðanum. Við erum búin að kortleggja leiðina niður götuna, hverjir eru orðnir gamlir, harðir og þurrir og þ.a.l. ekki eins hættulegir skóm og hverjir eru nýjir og allt þar á milli. Litur og blæbrigði...ekki vandamálið, og bráðum getur maður farið að vita úr hvaða tegund hvaða hraukur er. (Kræst!!...hvað það eru mikil viðbriði að vera heimavinnandi....maður virðist hafa tíma í allan andk.). Ætli spánverjar viti ekki af þartilgerðum pokum fyrir svona ófögnuð þegar þeir fara út að ganga með elskurnar sínar (þ.e.a.s. hundana:-'). Það mætti því segja að Spánverjar séu eiginlega hálfgerðir "Perrar"(sbr. "perro" = hundur.... fattiði ..HA ...hahaha???? :-) Nei...grínlaust...til dæmis, vitiði af hverju Canarí-eyjar draga nafn sitt?? Af einhverjum litlum og sætum Kanarí-fuglum kannski??? Neeeiii....ekki nú aldeilis!! Þær draga nafn sitt af latneska orðinu "Canis" sem þýðir, góðir hálsar, ....jú, mikið rétt...HUNDUR!!! Mætti segja mér að þegar fyrstu mennirnir komu þangað hafi allt verið löðrandi í hundum. Og bara núna rétt áðan var ég að fara út á bensístöð að kaupa jógúrt handa Ásthildi, dóttur minni, og þar sem ég stóð við kassann og var að borga, kemur þá ekki eitt perro-eintak og fer að djöflast á löppinni á mér. Eigandinn stóð einhversstaðar á kjafting og skipti sér ekkert af því þótt kvikindið væri að misnota ganglimi viðskiptavina búðarinnar. Það munaði frímerki að ég þrykkti spottinu upp í klámblaðarekkana (sem Spánverjar, "nota bene" kjósa að hafa í augnhæð barna, og það engan smá-sora) og ég hefði sennilega látið af því verða ef ekki hefði verið næstur á eftir mér maður merktur "Policia Local" í fullum skrúða með hjálm, byssu og allt og glotti eins og fáviti. Ég reyndi að fremja eitthvað sem líktist brosi á móti og hugsaði "afhverju býðurðu honum þá ekki stígvélið þitt, löggukúkur...aldrei að vita nema hann sé fyrir menn í einkennisbúningum...HA??? Og um daginn vorum við á gangi , fjölskyldan, í Tarragona....vindur sér þá ekki að mér eitthvað skrípi, sem ég hélt fyrst að væri vængstífð leðurblaka, og mígur ...ja..svona ca. fet frá löppinni á mér, og HANN var í bandi. Kall-helvítið stóð bara hjá og lét sem það væri bara í himnalagi þótt skoffínið mígi, svo að segja Á mig!!! Ég meina..ég veit ég er með fallega fótleggi og allt það ..en...þetta er nú "TO MUCH" takk fyrir...!!!!
Nei nei, þrátt fyrir þetta held ég nú að þetta sé, samt sem áður, í þokkalegum málum hjá þeim hérna, ja...nema þetta með að hreinsa upp skítinn eftir spottin. Allavega sér maður ekki mikið um lausa hunda hérna. Ég held þeir séu nú langflestir ágætir greyin og meira að segja held ég að ég sé búinn að eignast kunningja af þessari tilteknu dýrategund hérna á svölunum á móti. Þegar við komum hérna fyrst þá gelti hann þessi ósköp og ég sagði á móti "haltu kjafti, hund-helvíti" (svona eitthvað sem ég vissi að hvorki hann eða eigandinn mundu skilja) og viti menn...hann er farinn að gelta extra-lítið þegar ég labba framhjá...blessaður vinur minn!! Svo er nú örugglega betra að hafa hann sín megin, allavega þegar eigandinn er að viðra hann hérna úti, þetta er jú Rottweiler og það EKKI lítill.
Samt finnst mér alltaf jafn gaman að horfa á litlu kellinguna með Sheiffer-hundinn sem labbar hérna framhjá stundum. Maður veit ekki almennilega hvort er að labba út með hvort....hahaha!!!
Hann...á fullu að lykta af trjám til að míga utaní..ja...EÐA SKÍTA.. og hún...í hinum endanum á bandinu, eins og fuglahræða í roki, og reynir af veikum mætti að hemja skepnuna sem er helmingi stærri en hún. Kannski erfitt að lýsa þessu, en þetta er mjög fyndið.
Jæja þetta er nú orðið gott í bili og nóg af "perrum" komið. "Hasta la vista..folks" og bless frá Spáni.